15
Postulafundurinn í Jerúsalem
1 Meðan Páll og Barnabas voru í Antíokkíu komu þangað nokkrir menn frá Júdeu. Sögðu þeir við lærisveinana að þeir yrðu ekki hólpnir, nema þeir hlýddu hinni ævafornu venju Gyðinga að láta umskerast.
2 Páll og Barnabas rökræddu við þá fram og aftur og loks sendi söfnuðurinn þá til Jerúsalem, ásamt nokkrum heimamönnum, til að ræða mál þetta við postulana og öldungana þar.
3 Allur söfnuðurinn fylgdi þeim út fyrir borgina, en þeir héldu síðan áfram til Jerúsalem. Þeir komu við í borgum í Fönikíu og Samaríu, heimsóttu þar kristna menn og sögðu þeim – öllum til mikillar gleði – að heiðingjar hefðu einnig snúist til trúar.
4 Þegar þeir komu til Jerúsalem, var þeim vel tekið af postulunum, öldungunum og reyndar öllum söfnuðinum. Skýrðu þeir frá hverju Guð hafði komið til leiðar með starfi þeirra.
5 Þá stóðu upp nokkrir menn, fyrrverandi farísear, og sögðu að allir heiðingjar, sem tækju kristna trú, yrðu að láta umskerast og hlýða lögum Móse í einu og öllu.
6 Postularnir og öldungar safnaðarins, héldu eftir þetta annan fund og reyndu að fá niðurstöðu í málið.
7 Eftir langar og strangar umræður stóð Pétur upp og ávarpaði fundarmenn: „Bræður, ykkur er öllum ljóst að Guð valdi mig fyrir löngu úr ykkar hópi til að flytja heiðingjunum fagnaðarerindið, svo að þeir eignuðust trúna eins og við.
8 Guð, sem þekkir hjörtu mannanna, staðfesti það að hann tæki á móti heiðingjunum, með því að gefa þeim heilagan anda eins og okkur.
9 Hann gerði engan greinarmun á þeim og okkur, því að hann hreinsaði líf þeirra með trúnni á sama hátt og líf okkar.
10 Ætlið þið nú að fara að leiðrétta Guð með því að leggja þá byrði á heiðingjana, sem hvorki við né forfeður okkar hafa megnað að bera?
11 Trúið þið því ekki, eða hvað, að við frelsumst öll fyrir það sama: Fyrir óverðskuldaða náð Drottins Jesú?“
12 Þegar enginn svaraði, tóku Barnabas og Páll að segja frá kraftaverkunum, sem Guð hafði látið þá vinna meðal heiðingjanna.
13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu stóð Jakob upp og sagði: „Bræður, takið eftir.
14 Nú hefur Pétur sagt ykkur frá því þegar Guð vitjaði heiðingjanna í fyrsta skipti og gerði nafn sitt dýrlegt meðal þeirra.
15 Þetta afturhvarf heiðingjanna er í samræmi við það sem spámennirnir hafa sagt. Hlustið til dæmis á þennan kafla hjá Amosi:
16 Svo segir Drottinn: „Og ég mun snúa aftur og endurnýja sáttmálann við Davíð, sem rofinn var,
17 svo að heiðingjarnir finni mig einnig – allir þeir sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir.“
18 Þetta eru orð Drottins, sem opinberar fyrirætlanir sínar, sem hann gerði í upphafi.
19 Samkvæmt því er úrskurður minn þessi: Við skulum ekki krefjast þess af heiðingjunum, sem snúa sér til Guðs, að þeir haldi lög Gyðinga.
20 Þó skulum við senda þeim bréf og biðja þá að neyta ekki kjöts, sem fórnað hefur verið til skurðgoða. Biðjum þá einnig að forðast allt kynsvall, neyslu blóðs og kjöts af dýrum, sem hafa kafnað.
21 Enda hefur verið predikað gegn þessu í samkomuhúsum Gyðinga í hverri borg, hvern helgidag, öld eftir öld.“
22 Þá kusu postularnir, öldungarnir og allur söfnuðurinn fulltrúa til að senda til Antíokkíu, með þeim Páli og Barnabasi, til að kunngjöra þessa niðurstöðu. Þeir sem valdir voru til ferðarinnar voru Júdas (einnig kallaður Barsabbas) og Sílas, en þeir voru í miklum metum hjá söfnuðinum.
23 Bréfið, sem þeir höfðu meðferðis, var þannig:
„Frá: Postulum, öldungum, og trúsystkinum í Jerúsalem.
Til: Safnaðanna í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, sem áður voru heiðingjar.
Komið þið sæl!
24 Okkur hefur skilist að trúaðir menn, sem héðan hafa komið, hafi valdið ykkur kvíða og dregið í efa að þið væruð hólpin. Við viljum hér með segja ykkur að þessir menn voru ekki á okkar vegum.
25 Við höfum rætt málið og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Því fannst okkur rétt að senda ykkur þessa tvo fulltrúa okkar með bræðrunum elskuðu, Barnabasi og Páli,
26 sem hafa lagt líf sitt í hættu fyrir Jesú Krist.
27 Þessir menn – Júdas og Sílas – munu kunngjöra ykkur svar okkar við spurningu ykkar.
28-29 Okkur ásamt heilögum anda fannst rétt að íþyngja ykkur ekki meira en nauðsynlegt er með lögum Gyðinga. Þið ættuð þó að forðast að neyta – í fyrsta lagi kjöts af dýrum, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, í öðru lagi kjöts af dýrum, sem hafa kafnað, en ekki látið blæða út, og í þriðja lagi ættuð þið að forðast allt kynsvall. Ef þið varist þetta, þá mun ykkur vegna vel.“
„Verið þið sæl.“
30 Sendiboðarnir fjórir lögðu þegar af stað til Antíokkíu og er þangað kom kölluðu þeir saman allan söfnuðinn, og afhentu bréfið.
31 Þegar bréfið hafði verið lesið upp urðu menn mjög glaðir.
32 Júdas og Sílas, sem báðir voru góðir predikarar, hvöttu síðan lærisveinana með mörgum orðum og styrktu trú þeirra.
33 Þeir stóðu við í nokkra daga en héldu síðan aftur til Jerúsalem. Þeir fluttu með sér kveðjur og þakklæti til þeirra sem höfðu sent þá.
34-35 Páll og Barnabas urðu eftir í Antíokkíu og aðstoðuðu með predikun og kennslu.
Páll og Barnabas fara hvor sína leið
36 Nokkrum dögum síðar stakk Páll upp á því við Barnabas að þeir færu aftur til Litlu-Asíu og heimsæktu borgirnar, sem þeir höfðu predikað í, til þess að sjá hvernig söfnuðunum vegnaði.
37 Barnabas var sammála og vildi taka Jóhannes Markús með.
38 Það gat Páll ekki fallist á, því að Jóhannes hafði áður yfirgefið þá í Pamfýlíu.
39 Um þetta þrættu þeir mikið og héldu síðan hvor sína leið. Barnabas tók Markús með sér og sigldi til Kýpur,
40-41 en Páll valdi Sílas að samferðamanni og fór síðan, eftir að söfnuðurinn hafði beðið fyrir þeim, til Sýrlands og Kilikíu til að uppörva söfnuðina þar.