19
Lærisveinar í Efesus taka á móti heilögum anda
Meðan Apollós var í Korintu, var Páll á ferðalagi um Litlu-Asíu. Hann kom til Efesus, hitti þar nokkra lærisveina og spurði: „Fenguð þið heilagan anda þegar þið tókuð trú?“
„Nei,“ svöruðu þeir, „Hvað áttu við? Hvað er heilagur andi?“
„Hvaða skírn eruð þið skírðir?“ spurði hann. „Skírn Jóhannesar,“ svöruðu þeir.
Benti Páll þeim á að skírn Jóhannesar hefði verið iðrunarskírn fyrir þá sem vildu snúa sér frá syndinni og til Guðs, en að henni lokinni yrðu menn að taka trú á Jesú, þann sem Jóhannes hafði sagt að kæmi á eftir sér.
Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast í nafni Drottins Jesú. Og síðan, er Páll lagði hendur á höfuð þeirra, kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu tungum og spáðu – fluttu boðskap frá Guði. Menn þessir voru um tólf talsins.
Eftir þetta fór Páll til samkomuhúss Gyðinganna og þar predikaði hann djarflega á hverjum helgidegi í þrjá mánuði. Hann gerði grein fyrir hverju hann trúði og hvers vegna.
Margir sannfærðust og tóku trú á Jesú. Sumir mótmæltu þó boðskap hans og höfnuðu Kristi opinberlega. Hann greindi á milli þessara tveggja hópa og tók með sér hina trúuðu, hóf nýjar samkomur í skóla Týrannusar og predikaði þar daglega. 10 Þannig hélt hann áfram í tvö ár og árangurinn var sá að allir íbúar héraðsins Asíu – bæði Gyðingar og Grikkir – fengu að heyra boðskap Drottins. 11 Guð gaf Páli kraft til að gera óvenjuleg kraftaverk. 12 Það gerðist jafnvel er klútar eða flíkur af honum voru lögð á sjúka að þeir læknuðust og illir andar fóru út af þeim.
13 Flokkur særingamanna, allt Gyðingar, hafði það að starfi að ferðast um og reka út illa anda. Nú ákváðu þeir að gera tilraun með að nota nafn Drottins Jesú. Orðin sem nota átti til að særa út illu andana voru þessi: „Ég særi þig við Jesú, sem Páll predikar – út með þig!“ 14 Þeir voru allir synir Skeva, æðsta prests, sjö talsins. 15 En þegar þeir gerðu tilraun með þetta á manni, sem hafði illan anda, svaraði illi andinn: „Jesú þekki ég og líka Pál, en hverjir eruð þið?“ 16 Það skipti engum togum, hann réðist á tvo þeirra og barði þá svo að þeir flýðu naktir og illa meiddir út úr húsinu.
17 Fréttin af þessu barst fljótt um alla Efesus, jafnt til Gyðinga sem Grikkja. Urðu borgarbúar óttaslegnir og nafn Jesú óx mjög í augum fólksins. 18-19  Margir hinna trúuðu, sem farið höfðu með kukl og galdra, játuðu gjörðir sínar og söfnuðu saman öllum galdrabókunum og verndargripum og brenndu opinberlega. Álitið var að verðmæti bókanna næmi fimmtíu þúsund silfurpeningum! 20 Þetta sýnir glöggt hve boðskapur Guðs hafði sterk áhrif á þessu svæði.
Uppþotið í Efesus
21 Eftir þetta fannst Páli heilagur andi ætlast til að hann færi yfir til Grikklands, áður en hann sneri aftur til Jerúsalem. „Og þegar ég hef verið þar,“ sagði hann, „ber mér að fara til Rómar.“ 22 Síðan sendi hann tvo aðstoðarmenn sína, Tímóteus og Erastus, á undan sér til Grikklands, en dvaldist sjálfur enn um stund í Litlu-Asíu.
23 Um þessar mundir kom upp mikil ólga í Efesus vegna hinna kristnu. 24 Upphafið átti Demetríus, silfursmiður, en hann hafði marga menn í vinnu við að smíða silfurskrín, tileinkuð grísku veiðigyðjunni Artemis. 25 Hann kallaði menn sína, og aðra sem unnu við skyldan iðnað, á ráðstefnu og sagði:
„Herrar mínir, við höfum allar okkar tekjur af þessum viðskiptum. 26 Ykkur er ljóst að þessi Páll hefur talið fjölmörgum trú um að guðir, sem búnir eru til af mannahöndum, séu alls engir guðir. Afleiðingin er sú að salan hjá okkur hefur stórlega dregist saman. Þetta hefur ekki aðeins gerst hér í Efesus, heldur í öllu héraðinu. 27 Vitanlega hugsa ég ekki aðeins um viðskiptalegu hliðina á þessu máli – okkar fjárhagslega tap – heldur einnig þann möguleika að áhrif hinnar miklu gyðju, Artemisar fari minnkandi og að hún, sem ekki aðeins er tilbeðin í þessum hluta Litlu-Asíu heldur um allan heim – muni gleymast!“
28 Þegar fundarmenn heyrðu þetta urðu þeir ævareiðir og hrópuðu í sífellu: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“
29 Af þessum sökum safnaðist mikill mannfjöldi saman og öll borgin komst í uppnám. Múgurinn ruddist á leikvanginn, dró með sér þá Gajus og Aristarkus, fylgdarmenn Páls, til að yfirheyra þá. 30 Páll vildi reyna að komast inn í mannþröngina, en lærisveinarnir hindruðu það. 31 Sumir hinna rómversku embættismanna héraðsins voru vinir Páls. Þeir sendu honum boð og báðu hann að hætta ekki lífi sínu með því að fara þangað inn.
32 Á leikvanginum hrópaði hver í kapp við annan og þar var algjör upplausn. Engir tveir voru sammála og fæstir vissu reyndar hvers vegna þeir voru þar.
33 Þá kom einhver af Gyðingunum auga á Alexander og var hann þegar dreginn fram. Hann gaf merki um þögn og síðan reyndi hann að taka til máls. 34 Þegar fólkinu varð ljóst að hann var Gyðingur, æpti það og hrópaði í nærfellt tvær stundir: „Mikil er Artemis Efesusmanna! Mikil er Artemis Efesusmanna!“
35 Loks tókst borgarstjóranum að þagga svo niður í mannfjöldanum að hann gat tekið til máls. „Efesusmenn,“ sagði hann. „Öllum er ljóst að Efesus er miðstöð tilbeiðslu hinnar miklu Artemisar og það var líkneski hennar sem féll til okkar af himni. 36 Þetta er óhrekjandi staðreynd og því ættuð þið ekki að láta þetta raska ró ykkar né gera neitt í fljótfærni. 37 Samt hafið þið nú dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki stolið neinu úr musteri Artemisar né lastmælt henni. 38 Ef Demetríus og smiðirnir hafa einhverja ákæru á hendur þeim, þá er rétturinn reiðubúinn að taka málið fyrir undir eins, því að hann er að störfum núna. Mál þetta verður að reka á lögmætan hátt. 39 Ef um önnur deilumál er að ræða, gerið þá út um þau á hinum reglubundnu fundum borgarráðsins, 40 en svona megum við ekki fara að. Við eigum áreiðanlega á hættu að verða að svara til saka, hjá rómversku yfirvöldunum, fyrir þetta uppþot hér í dag, því að það var algjörlega tilefnislaust. Heimti Rómverjarnir skýringu, veit ég hreint ekki hvað segja skal.“
41 Síðan bað hann fólkið að fara og mannfjöldinn dreifðist.