24
1 Fimm dögum síðar kom Ananías æðsti prestur ásamt nokkrum leiðtogum Gyðinga og lögfræðingnum Tertúllusi til að sækja málið gegn Páli.
2 Tertúllus var kallaður fyrir landstjórann og bar þar fram ákærur gegn Páli. Hann sagði:
3 „Göfugi Felix, fyrir þitt tilstilli höfum við Gyðingar fengið að lifa í friði og þú hefur stórlega rétt hlut okkar.
4 En til að tefja þig sem minnst, bið ég þig vinsamlegast að hlusta á mig andartak meðan ég skýri þér stuttlega frá ákærum okkar gegn þessum manni.
5 Við höfum komist að því að hann veldur vandræðum um allan heim og æsir Gyðinga til óeirða gegn rómverskum yfirvöldum. Hann er forsprakki sértrúarflokks sem þekktur er undir nafninu nasarearnir.
6 Auk alls þessa reyndi hann að saurga musterið, en þá gripum við hann.
Við ætluðum að veita honum verðskuldaða ráðningu,
7 en þá kom Lýsías hersveitarforingi og tók hann af okkur með ofbeldi.
8 Hann krafðist þess að farið yrði með mál hans eftir rómverskum lögum. Þú getur sjálfur gengið úr skugga um réttmæti ásakana okkar með því að yfirheyra manninn.“
9 Þessu samsinntu hinir Gyðingarnir og lýstu yfir því að framburður Tertúllusar væri réttur.
10 Nú var röðin komin að Páli. Landstjórinn gaf honum bendingu um að rísa á fætur og tala máli sínu.
Páll tók til máls og sagði: „Mér er kunnugt um, herra, að þú hefur verið dómari í málum Gyðinga um árabil og finnst mér gott að vita það, nú þegar ég flyt varnarræðu mína.
11 Þú munt fljótt komast að því að ekki eru liðnir nema tólf dagar síðan ég kom til Jerúsalem, til að biðjast fyrir í musterinu.
12 Einnig að ég hef ekki komið af stað óeirðum í nokkru samkomuhúsi Gyðinga né á götum nokkurrar borgar.
13 Þessir menn geta áreiðanlega ekki sannað neina af þeim ásökunum, sem þeir hafa borið á mig.
14 En eitt vil ég játa og það er að ég trúi þeirri hjálpræðisleið sem þeir kalla sértrú. Ég þjóna Guði á sama hátt og forfeður okkar, og ég vil taka það fram, að ég trúi öllu sem skrifað er í lögum Gyðinga og ritum spámannanna.
15 Þessir menn trúa því að bæði vondir og góðir muni rísa upp og sama segi ég.
16 Af þessum ástæðum reyni ég ávallt að hafa góða samvisku, bæði gagnvart Guði og mönnum.
17 Eftir nokkurra ára fjarveru kom ég aftur til Jerúsalem og hafði þá með mér peninga til aðstoðar Gyðingum. Einnig kom ég til að færa Guði fórn.
18 Ákærendur mínir sáu mig í musterinu, þegar ég var að bera fram þakkarfórn mína. Ég hafði rakað höfuð mitt eins og lög Gyðinga gera ráð fyrir og umhverfis mig var hvorki æstur múgur né uppþot. Þar voru hins vegar nokkrir Gyðingar frá Litlu-Asíu
19 – þeir ættu reyndar að vera hér, hafi þeir eitthvað að ásaka mig fyrir.
20 En gerðu nú eitt. Spurðu þessa menn, hér og nú, hvaða sök Gyðingaráðið hafi fundið hjá mér,
21 aðra en þá að ég kallaði upp: „Ég er hér fyrir rétti í dag til að verja þá trú mína að dauðir muni rísa upp!“ “
22 Felix, sem vissi vel að kristnir menn voru ekki vanir að valda óeirðum, bað nú Gyðinga að bíða komu Lýsíasar hersveitarforingja og þá mundi hann dæma í málinu.
23 Síðan bauð hann að Páli skyldi haldið í fangelsi. Jafnframt gaf hann vörðunum fyrirmæli um að fara vel með hann og leyfa vinum hans að heimsækja hann.
24 Nokkrum dögum síðar kom Felix, ásamt Drúsillu eiginkonu sinni, sem var Gyðingur. Lét hann sækja Pál og hlustuðu þau á hann segja frá trú sinni á Jesú Krist.
25 Þegar Páll fór að tala um réttlæti, líf í hreinleika og komandi dóm, varð Felix mjög hræddur og sagði: „Þetta er nóg í bili. Ég mun kalla á þig aftur þegar betur stendur á.“
26 Hann gerði sér vonir um að Páll myndi bjóða sér mútur og lét því senda eftir honum öðru hverju til þess að ræða við hann.
27 Þannig liðu tvö ár. Eftir það tók Porkíus Festus við af Felix og vegna þess að Felix vildi koma sér í mjúkinn hjá Gyðingunum skildi hann Pál eftir í fangelsinu.