15
Kjarni málsins
Kæru vinir, nú vil ég minna ykkur á kjarna fagnaðarerindisins. Hann hefur ekki breyst – það er sami góði boðskapurinn sem ég flutti ykkur forðum. Þið tókuð við honum með fögnuði og gerið enn, því að trú ykkar er grundvölluð á þessum dásamlega boðskap. Hann mun verða ykkur til hjálpræðis ef þið haldið fast í trúna, annars ekki til neins.
Ég sagði ykkur þegar frá byrjun, eins og mér hafði verið kennt, að Kristur dó vegna synda okkar – alveg eins og Biblían hafði sagt fyrir. Hann var grafinn og reis á þriðja degi frá dauðum, eins og spámennirnir höfðu talað um. Eftir það birtist hann Pétri og því næst hinum postulunum. Síðan sáu hann meira en fimm hundruð trúbræður okkar í einu og eru flestir þeirra á lífi enn í dag. Þá birtist hann líka Jakobi og loks postulunum öllum. Síðast allra birtist hann svo mér, löngu síðar – eins og ég hefði fæðst of seint – því að ég er sístur allra postulanna og reyndar ætti ég alls ekki að kallast postuli, því að ég ofsótti söfnuðinn – kirkju Guðs.
10 En það sem ég er nú, er allt því að þakka að Guð veitti mér óverðskuldaða miskunn og náð. Það varð ekki heldur til einskis, því ég hef lagt harðar að mér en nokkur hinna postulanna. Slíkt er þó ekki mér að þakka heldur hefur Guð komið því til leiðar. 11 Það skiptir ekki máli hver hefur unnið mest, ég eða þeir, mikilvægast er að við fluttum ykkur gleðiboðskapinn og að þið trúðuð honum.
12 En bíðið nú við! Hvernig stendur á því að sum ykkar segja að hinir dauðu muni ekki lifna á ný, fyrst þið trúið boðskap okkar um að Kristur sé upprisinn frá dauðum? 13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá hlýtur Kristur að liggja dáinn í gröf sinni. 14 Og sé hann ekki upprisinn, þá höfum við predikað til ónýtis og þá er trú ykkar og traust á Guði einskis virði, og allt vonlaust! 15 Þá erum við postularnir allir lygarar, því að við höfum staðhæft að Guð hafi reist Krist úr gröfinni – það er þá auðvitað ósatt ef dauðir geta ekki risið upp. 16 Ef þeir geta það ekki, þá er Kristur ekki heldur upprisinn. 17 Þá er líka trú ykkar, að Guð geti hjálpað ykkur og frelsað, tóm vitleysa og þið þar með enn ofurseld bölvun syndarinnar. 18 Þá eru þeir allir glataðir, sem dáið hafa í trú á upprisu Krists, 19 og við sem nú trúum vonlaus og aumust allra manna.
20 Nei og aftur nei! Kristur er svo sannarlega upprisinn! Hann er hinn fyrsti allra þeirra sem eiga eftir að rísa upp frá dauðum.
21 Dauðinn kom inn í þennan heim vegna syndar eins manns Adams, en fyrir tilverknað Krists er nú til upprisa dauðra. 22 A sama hátt og allir deyja vegna þess að þeir eru afkomendur Adams, svo munu og allir þeir sem tilheyra Kristi, rísa upp frá dauðum. 23 Þó hver í réttri röð: Kristur fyrst, og síðan – er Kristur kemur aftur – munu allir sem honum tilheyra rísa upp til lífsins á ný.
24 Þegar hann hefur lagt að velli alla óvini sína, koma endalokin og hann afhendir Guði föður konungsvald sitt.
25 Kristur mun verða konungur uns hann hefur sigrað alla óvini sína, 26 þar á meðal síðasta óvininn, dauðann. 27 Guð gefur Kristi allt vald á himni og jörðu, en Kristur ríkir þó auðvitað ekki yfir Guði föður, sem gaf honum þetta vald og ráð. 28 Þegar Kristur hefur loks unnið sigur á öllum óvinum sínum, mun hann, sonur Guðs, fela allt undir vald föðurins, svo að Guð, sem hefur gefið honum sigur yfir öllu, mun verða allsráðandi og æðstur.
29 Til hvers eru menn að láta skíra sig fyrir þá dánu, ef dánir menn rísa alls ekki upp?
30 Og hvers vegna ættum við þá sífellt að leggja líf okkar í hættu? 31 Dag hvern er ég í bráðri lífshættu. Það er eins satt og ég er hreykinn af því að hafa leitt ykkur til trúar á Drottin, Jesú Krist. 32 Og hvaða vit væri þá í því að berjast við óargadýr, eins og í Efesus, ef það væri aðeins til þess að hljóta ávinning í þessu lífi? Ef Drottinn vekur okkur ekki upp frá dauðum þá skulum við bara borða, drekka, vera glöð og njóta líðandi stundar, því að á morgun deyjum við og þá er allt búið!
33 Nei, látið ekki þá sem svona tala blekkja ykkur. Ef þið hlustið á þá, þá farið þið fljótlega að líkja eftir þeim. 34 Verið á verði og syndgið ekki. Ykkur til blygðunar segi ég: Sum ykkar eru hreint ekki kristin og hafa aldrei kynnst Guði í raun og veru.
Upprisa okkar – nýr líkami
35 Nú kann einhver að spyrja: „Hvernig munu dauðir rísa upp? Hvers konar líkama munu þeir fá?“ 36 Svona spurning er óþörf. Líttu á garðinn þinn. Þegar þú sáir fræi í mold, þá verður það ekki að jurt nema það deyi fyrst. 37 Græni sprotinn, sem springur út úr fræinu, er harla ólíkur fræinu sem þú sáðir. Það sem þú sáðir í moldina var örsmátt korn – hvort sem það var hveiti eða eitthvað annað. 38 Síðan gefur Guð því nýjan líkama, einmitt af þeirri gerð sem hann sjálfur vill. Af hverri frætegund vex sérstök jurt, ólík öðrum tegundum. 39 Rétt eins og til eru mismunandi tegundir jurta, þannig eru til mismunandi gerðir holds: Menn, dýr, fiskar, fuglar – allt er þetta sitt með hverju móti.
40 Englarnir á himnum hafa líkama, sem eru gjörólíkir okkar. Fegurð þeirra og vegsemd er önnur en fegurð og vegsemd okkar. 41 Sólin er dýrleg í ljóma sínum, og tunglið og stjörnurnar eru það líka, en þó á annan hátt, og innbyrðis ber stjarna af stjörnu í birtu og ljóma.
42 Á sama hátt eru jarðneskir líkamar okkar, sem deyja og rotna, ólíkir þeim líkömum sem við fáum í upprisunni, því að þeir munu aldrei deyja. 43 Þeir líkamar sem við höfum nú, valda okkur oft erfiðleikum, því að þeir sýkjast, hrörna og deyja, en í upprisunni munu þeir breytast á dýrlegan hátt. Nú eru þeir veikbyggðir og dauðlegir, en þá verða þeir þrungnir lífskrafti. 44 Í dauðanum eru þeir mannlegir líkamar, en í upprisunni himneskir líkamar.
45 Biblían segir að hinum fyrsta manni, Adam, hafi verið gefinn jarðneskur líkami en Kristur er meira en það, því að hann er lífgefandi andi.
46 Sem sagt: Fyrst höfum við jarðneskan líkama, en síðan gefur Guð okkur andlegan, himneskan líkama. 47 Adam var myndaður af efnum jarðar, en Kristur kemur af himnum. 48 Sérhver maður hefur líkama af sömu gerð og Adam, úr jarðnesku efni, en allir sem Kristi tilheyra, munu hljóta sams konar líkama og hann – himneskan líkama. 49 Eins og við nú höfum sams konar líkama og Adam, munum við í upprisunni fá sams konar líkama og Kristur.
50 Því segi ég ykkur, kæru vinir, jarðneskur líkami úr holdi og blóði getur ekki komist inn í guðsríki, því að okkar dauðlegu líkamar geta ekki lifað að eilífu. 51 En nú segi ég ykkur furðulegan og dásamlegan leyndardóm: Við munum ekki öll deyja, en þó munum við öll fá nýjan líkama – við munum umbreytast! Allt mun þetta gerast á svipstundu, þegar síðasti lúðurinn hljómar. 52 Þá munu allir kristnir menn, sem dánir eru, rísa upp, íklæddir nýjum líkömum, sem aldrei hrörna eða deyja. Þeir sem þá verða enn á lífi, munu allt í einu umbreytast og fá nýjan líkama eins og hinir. 53 Þessir jarðnesku dauðlegu líkamar okkar, sem við berum nú, verða að umbreytast í himneska líkama sem aldrei deyja.
54 Þegar þetta gerist, munu rætast þessi orð Biblíunnar: „Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. 55-56  Dauði, hvar er sigur þinn? Hvar er broddur þinn?“ Syndin – broddurinn sem veldur dauða – verður þá orðin að engu og lögmálið, sem afhjúpar syndir okkar, mun ekki lengur dæma okkur.
57 Þökkum Guði fyrir allt þetta. Það er Guð sem gefur okkur sigurinn fyrir Drottin, Jesú Krist.
58 Kæru vinir – framtíðarsigurinn er tryggður! Verið því sterk, óbifanleg, sístarfandi fyrir Drottin, og vitið að ekkert, sem þið gerið fyrir hann, er til einskis.