11
1 Ég vona að þið umberið mig þótt ég haldi áfram að tala eins og heimskingi. Umberið mig og leyfið mér að segja það sem mér liggur á hjarta.
2 Mér stendur ekki á sama um ykkur – ég ber sömu umhyggju fyrir ykkur og Guð. Ó, hve ég þrái að kærleikur ykkar beinist að Kristi einum, á sama hátt og ung og hrein stúlka geymir ást sína handa þeim sem hún elskar, og síðar giftist.
3 En eitt óttast ég og það er að hugsanir ykkar spillist og einlægni ykkar gagnvart Drottni fari dvínandi, rétt eins og þegar Satan tældi Evu í Edensgarði.
4 Þið virðist svo auðtrúa! Þið trúið öllu sem ykkur er sagt. Þið trúið jafnvel mönnum sem koma og boða annan Jesú en þann sem við boðum, annan anda en heilagan anda sem þið tókuð á móti og aðra leið til hjálpræðis en þá sem við sýndum ykkur. Þið gleypið við öllu.
Þessir menn eru svikarar!
5 Mér finnast þessir „stórkostlegu sendimenn Guðs“, eins og þeir kalla sig, ekki standa mér framar í neinu.
6 Þótt ég sé lélegur ræðumaður þá veit ég þó hvað ég segi, það vona ég að ykkur sé ljóst.
7 Ég flutti ykkur fagnaðarerindið en ég krafðist einskis af ykkur í staðinn. Voru það mistök hjá mér? Átti ég að fara fram á einhverja þóknun og var rangt af mér að auðmýkja mig?
8-9 Ég rúði aðra söfnuði og lifði á því sem þeir sendu mér, einnig þann tíma sem ég var hjá ykkur. Þannig þjónaði ég ykkur án þess að það kostaði ykkur neitt. Og þótt allt þryti og ég liði skort, þá bað ég ykkur samt ekki um neitt, því að hinir kristnu í Makedóníu færðu mér aðra gjöf. Ég hef aldrei beðið ykkur um krónu og mun aldrei gera það.
10 Þetta skal ég standa við og segja öllum í Grikklandi.
11 Hvers vegna? Er það vegna þess að mér þyki ekki vænt um ykkur? Nei, Guð veit að mér þykir það.
12 En þetta geri ég til að kippa fótunum undan þeim sem stæra sig og segjast vinna verk Guðs eins og við.
13 Þessir menn eru ekki sendir af Guði, það er áreiðanlegt. Þeir eru svikarar sem hafa fengið ykkur til að halda að þeir séu postular Krists.
14 Það undrar mig reyndar ekki. Satan getur brugðið sér í gervi ljósengils.
15 Verum því ekki hissa þótt þjónar hans geti gert það sama og látist vera þjónar Guðs. Þessir menn munu þó að lokum verða að súpa seyðið af illverkum sínum, rétt eins og þeir eiga skilið.
16 Ég bið ykkur enn, og það vegna þessara orða, að halda ekki að ég sé búinn að missa vitið. En þótt þið haldið að svo sé, þá hlustið samt á mig – glórulausan manninn – heimskingjann. Nú ætla ég að hrósa mér dálítið á sama hátt og þeir.
17 Slíkt grobb er ekki að vilja Guðs og því tala ég nú eins og algjör fáviti.
18 Þessir menn eru sífellt að ræða við ykkur um hæfileika sína.
19-20 Þið álítið ykkur skynsöm, en hlustið samt með ánægju á þessa heimskingja. Ykkur er alveg sama þótt þeir geri ykkur að þrælum, taki frá ykkur allt sem þið eigið, græði á ykkur og setji síðan upp merkissvip og slái ykkur utan undir.
21 Mér þykir leitt, en ég mundi aldrei áræða að gera slíkt. En hverju sem þeir stæra sig af – og nú tala ég aftur eins og bjáni – þá get ég það líka. Jæja, lítum nú á hvað þeir segja.
22 Þeir hrósa sér af því að vera Hebrear. Gott og vel, það er ég líka. Þeir segjast vera Ísraelsmenn og tilheyra Guðs útvöldu þjóð, ekki satt? Ég líka. Segjast þeir ekki vera afkomendur Abrahams? Sama er að segja um mig.
23 Þeir halda því fram að þeir þjóni Kristi. Ég hef þjónað honum betur en þeir allir. (Nú tala ég eins og vitfirringur!) Ég hef lagt á mig meira erfiði en þeir, verið oftar í fangelsi, verið húðstrýktur mörgum sinnum og horfst í augu við dauðann hvað eftir annað.
24 Fimm sinnum létu Gyðingar húðstrýkja mig, þrjátíu og níu högg í hvert sinn. Það var hræðilegt.
25 Þrisvar hef ég verið barinn með prikum. Eitt sinn grýttur, þrisvar hef ég liðið skipbrot og eitt skiptið var ég sólarhring í sjó.
26 Það er mörg leiðin og erfið sem ég hef orðið að ganga. Oft hef ég komist í hann krappan. Ég hef þurft að vaða vatnsmiklar ár. Ræningjar hafa verið á leið minni og lent hef ég í kasti við landa mína Gyðinga jafnt sem heiðingja. Margsinnis hef ég verið í lífshættu. Víða í borgum hef ég verið umkringdur af æstum múg.
27 Ég hef verið útslitinn, sárþjáður, og margar andvökunæturnar hef ég átt. Oft hef ég þurft að þola hungur og þorsta, verið klæðlítill og þjáðst af kulda.
28 Auk alls þessa hef ég sífelldar áhyggjur af því hvernig söfnuðunum líður.
29 Hver gerir mistök án þess að ég verði hryggur? Hver fellur án þess að ég hafi áhuga á að reisa hann á fætur?
30 Ef ég á annað borð verð að hrósa mér, þá vil ég heldur hrósa mér af veikleika mínum.
31 Guð, faðir Drottins Jesú Krists, hann sem lofaður verður um aldir alda, veit að ég segi satt.
32 Í Damaskus lét til dæmis landshöfðingi Areta konungs setja varðmenn við borgarhliðin til að handsama mig.
33 En þá var ég látinn síga í körfu út um gat á borgarmúrnum og þannig slapp ég. (Eftirsóttur? Já, það má nú segja!)