11
Jóhannes skírari sendir menn til Jesú
Þegar Jesús hafði gefið lærisveinunum tólf þessi fyrirmæli hélt hann áfram að ferðast um og predika í bæjum og þorpum.
Jóhannes skírari sat um þessar mundir í fangelsi. Þegar hann frétti af kraftaverkunum, sem Kristur vann, sendi hann lærisveina sína til hans til að spyrja: „Ert þú í raun og veru sá sem við höfum beðið eftir, eða eigum við að vænta annars?“
Jesús svaraði þeim og sagði: „Farið og segið Jóhannesi frá kraftaverkunum sem þið hafið séð mig gera: Ég hef læknað blinda og holdsveika, og þeir sem lamaðir voru ganga nú óstuddir. Heyrnarlausir heyra, dauðir lifna við og fátækum eru fluttar gleðifréttir. Segið honum líka: „Guð blessar þann sem dregur orð mín ekki í efa.“ “
Þegar lærisveinar Jóhannesar voru farnir, fór Jesús að tala um hann við mannfjöldann og sagði: „Hvað bjuggust þið við að sjá þegar þið fóruð út í eyðimörkina til Jóhannesar? Strá, skekið af vindi? Eða áttuð þið von á að sjá mann klæddan konungsskrúða? Eða spámann Guðs? Já, hann er meira en spámaður. 10 Hann er sá sem sagt var fyrir um í Biblíunni: „boðberinn sem tilkynnti komu mína og bjó fólk undir að taka á móti mér.“ 11 Ég segi ykkur satt: Enginn þeirra manna, sem enn hafa fæðst, jafnast á við Jóhannes skírara, þó eru hinir minnstu í himnaríki honum meiri! 12 Frá þeirri stundu er Jóhannes skírari hóf að predika og skíra hafa menn viljað ná guðsríki undir sig með valdi. 13 Lög Móse og spámennirnir sögðu fyrir um þetta. Síðan kom Jóhannes og sagði það sama. 14 Ef þið viljið skilja mig rétt, þá er hann sá Elía sem spámennirnir sögðu að koma mundi (áður en guðsríki kæmi).
15 Ef þið viljið hlusta, takið þá eftir því sem ég segi nú:
16 Hvað á ég að segja um þessa þjóð? Hún er eins og börn að leik, sem segja við félaga sína:
17 „Við lékum brúðkaupslag, en þið glöddust ekki, þá lékum við sorgarlag, en samt grétuð þið ekki!“
18 Jóhannes skírari drakk ekki vín og fastaði oft. Þá sögðu menn: „Hann er geðveikur!“ 19 En ef ég, Kristur, tek þátt í veislum og drekk, þá er kvartað og ég kallaður átvagl, vínsvelgur og vinur stórsyndara! – Slíkum vitringum finnst allt rétt sem þeir gera sjálfir!“
Viðvaranir
20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverkin, því þær höfðu ekki snúið sér til Guðs. Hann sagði: 21 „Ég kalla dóm yfir þig Kórasín og þig Betsaída! Ef kraftaverk þau sem ég hef gert á strætum ykkar, hefðu gerst í Týrus og Sídon, þá hefðu þær fyrir löngu iðrast og auðmýkt sig. 22 Betur mun fara fyrir Týrus og Sídon á dómsdegi en ykkur. 23 Kapernaum, þér hlotnaðist mikill heiður, en þér verður eytt! Ef öll kraftaverkin, sem ég hef gert í þér, hefðu gerst í Sódómu, stæði hún enn í dag. 24 Því segi ég að betur mun fara fyrir Sódómu á degi dómsins en þér, Kapernaum!“
Jesús býður hvíld og frið
25 Um þetta leyti bað Jesús þessarar bænar: „Þökk sé þér, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur opinberað börnum það sem þú huldir spekingum og fræðimönnum. 26 Já, faðir, þannig vildir þú hafa það.“
27 „Faðir minn hefur falið mér að gera allt sem ég geri. Faðirinn einn gjörþekkir soninn og sonurinn einn þekkir föðurinn, svo og þeir sem sonurinn hefur opinberað hann. 28 Komið til mín, allir þið sem erfiðið og berið þungar byrðar, og ég mun veita ykkur hvíld. 29-30  Takið á ykkur ok mitt og lærið af mér, ég er lítillátur og auðmjúkur. Þá munuð þið finna sálum ykkar hvíld. Mitt ok er indælt og byrði mín létt.“