40
1-2  Ég setti alla mína von á Drottin. Hann heyrði kvein mitt og að lokum bjargaði hann mér. Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, hinni botnlausu leðju, og lyfti mér upp á klett. Hann gerði mig styrkan í gangi.
Þá fylltist munnur minn lofsöng – lofgjörð um Guð. Margir hlustuðu er ég söng um velgjörðir hans við mig. Þeir munu einnig lúta honum og lofa hann, setja traust sitt á hann. Þeir sem treysta Drottni verða lánsamir, þeir sem forðast ráð dramblátra og halda sér frá lygi.
Drottinn, Guð minn, mörg dásemdarverk hefur þú gert og mikillar umhyggju höfum við notið. Ekkert kemst í samjöfnuð við þig! Mér endist ekki tími til að rifja upp öll þín undraverk!
Sláturfórnir og matfórnir þráir þú ekki frá lýð þínum, og brennifórnir heimtar þú ekki. Nei, þú þráir að ég þjóni þér alla ævi. Ég sagði: „Sjá, ég kem, rétt eins og orð þitt býður mér. Það að gera vilja þinn, Drottinn minn, þrái ég því að lögmál þitt er ritað á hjarta mitt!“
10 Ég hef vitnað um það fyrir öllum, aftur og aftur, að þú fyrirgefur syndir. Það veistu Drottinn. 11 Ég hef ekki þagað yfir réttlæti þínu heldur boðað það öllum. Allur söfnuðurinn hefur heyrt mig tala um elsku þína og trúfesti.
12 Þess vegna, Drottinn minn, taktu ekki miskunn þína frá mér! Ég á allt mitt undir kærleika þínum og náð. 13 Sért þú ekki með mér, er úti um mig. Vandamál mín eru mér ofvaxin, og syndir mínar – sem eru fleiri en hárin á höfði mér – hafa lamað mig. Ég veit ekki mitt rjúkandi ráð.
14 Ó, Drottinn, ég hrópa til þín! Frelsa þú mig! Komdu fljótt og hjálpaðu mér. 15-16  Ruglaðu þá í ríminu; sem sækjast eftir lífi mínu. Sendu þá burt með skömm!
17 Allir þeir sem elska Drottin og leita hans, skulu gleðjast yfir hjálpræði hans. Þeir segi án afláts: „Mikill er Drottinn!“
18 Ég er aumur og fátækur, en þó ber Drottinn umhyggju fyrir mér. Þú, Guð minn, ert hjálp mín, og frelsari; Ó, komdu og bjargaðu mér! Láttu það ekki dragast!.