44
1-2  Guð, við höfum heyrt um máttarverk þín á dögum forfeðra okkar. Þeir hafa sagt: Hann rak heiðnu þjóðirnar úr landinu og gaf okkur það, lét Ísrael setjast hér að. Ekki sigruðu þeir af eigin krafti, heldur vegna máttar þíns og velþóknunar þinnar á þeim.
Þú ert konungur minn og Guð. Láttu þjóð þína vinna sigur! Aðeins í þínum krafti og nafni sigrum við óvininn. Vopnin duga skammt, þau tryggja ekki sigur. Aðeins með þinni hjálp getum við sigrað.
Guð, aftur og aftur hrósa ég mér af þér. Hvernig get ég þakkað þér sem skyldi! 10 En þó hefur þú, Drottinn, nú um stund yfirgefið okkur og ekki stutt í orustum. 11 Já, þú hefur barist gegn okkur og við höfum flúið. Óvinir okkar gerðu árás. Þeir rændu og rupluðu. 12 Þú hefur farið með okkur eins og sláturfé, tvístrað okkur meðal þjóðanna. 13 Þú selur þjóð þína fyrir lítið, metur hana einskis virði. 14 Nágrannarnir hæða okkur og spotta vegna alls sem þú lætur á okkur dynja. 15 Þín vegna er „Gyðingur!“ háðsyrði og hneyksli meðal þjóðanna, öllum til ama. 16-17  Ég verð fyrir stöðugum skömmum, mér er formælt og ég fyrirlitinn af hefnigjörnum óvinum.
18 Og þetta hefur gerst, Drottinn, þrátt fyrir tryggð okkar við þig. Sáttmála þinn höfum við ekki rofið. 19 Ekki höfum við snúið okkur gegn þér, ekki vikið eitt skref af vegi þínum! 20 Væri svo, gætum við skilið refsingu þína, landauðn og niðdimmu dauðans. 21 Ef við hefðum hætt að tilbiðja Guð og snúið okkur að hjáguðadýrkun, 22 hefði honum þá ekki verið kunnugt um það? Hann sem þekkir alla hluti og leyndarmál mannanna. 23 En það höfum við ekki gert. Við erum í dauðans hættu fyrir það eitt að þjóna þér! Við erum eins og lömb leidd til slátrunar!
24 Vakna þú! Rís þú á fætur! Hvers vegna sefur þú, Drottinn? Hefur þú hafnað okkur fyrir fullt og allt? 25 Hvers vegna horfir þú í aðra átt? Af hverju er þér sama um sorg okkar og neyð? 26 Við erum fallnir og liggjum hér endilangir. 27 Rís þú upp, Drottinn, komdu og hjálpaðu okkur! Frelsaðu okkur vegna eilífrar elsku þinnar.