12
Konan og barnið
1 Nú sá ég mikla sýn á himnum og var hún tákn hins ókomna.
Ég sá konu sem klæddist ljóma sólarinnar og hafði tunglið undir fótum. Hún bar kórónu með tólf stjörnum á höfðinu.
2 Hún var þunguð og hljóðaði af sársauka, því að komið var að fæðingu.
3 Allt í einu birtist rauður dreki. Hann hafði sjö höfuð, tíu horn og kórónu á hverju höfði.
4 Hann dró á eftir sér þriðjung stjarnanna á halanum og fleygði þeim niður á jörðina. Síðan nam hann staðar frammi fyrir konunni sem var að því komin að fæða. Hann var reiðubúinn að gleypa barnið jafnskjótt og það sæi dagsins ljós.
5 Og konan fæddi dreng. Þessum dreng var ætlað að stjórna öllum þjóðum með voldugri hendi og því var hann hrifinn upp til Guðs – að hásæti hans.
6 En konan flýði út í eyðimörkina, þar sem Guð hafði búið henni stað, og þar yrði hennar gætt í 1.260 daga.
7 Þá hófst stríð á himni: Mikael stjórnaði englum Guðs og barðist við drekann og alla þá hirð fallinna engla sem honum fylgdi.
8 Drekinn beið ósigur og var rekinn burt af himnum.
9 Honum var síðan fleygt niður til jarðar, ásamt öllum her sínum. Þessi voldugi dreki er gamli höggormurinn, sem kallast djöfull eða Satan, og það er hann sem leiðir allan heiminn afvega.
10 Þá heyrði ég hrópað hárri röddu um himininn: „Loksins! Loksins er hjálpræði Guðs komið, svo og máttur, ríki og vald Krists. Þeim sem ákærði okkur, dag og nótt frammi fyrir Guði, hefur nú verið varpað af himnum og niður til jarðar.
11 Þeir sigruðu hann með blóði lambsins og vitnisburði sínum. Þeir elskuðu ekki eigið líf, heldur gáfu það lambinu.
12 Gleðjist, himnar, og þið sem í þeim búið! Fagnið og verið glaðir! En þið, íbúar jarðarinnar, vei ykkur: Djöfullinn er stiginn niður til ykkar í miklum móði, því að hann veit að hann hefur nauman tíma.“
13 Þegar drekinn sá að honum hafði verið varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna sem fætt hafði barnið.
14 En konunni voru gefnir tveir vængir, eins stórir og arnarvængir, svo að hún gæti flogið út í auðnina, til þess staðar sem henni var búinn, og þar var hennar gætt fyrir höggorminum – drekanum – í þrjú og hálft ár.
15 Drekinn spýtti miklu vatnsflóði á eftir konunni og átti það að hrífa hana með sér.
16 En jörðin kom henni til hjálpar með því að opna munn sinn og svelgja flóðið.
17 Þá varð drekinn óður og hélt brott til þess að ráðast á önnur börn hennar – öll þau sem halda boðorð Guðs og játa trú á Jesú.
18 Og drekinn nam staðar á ströndinni.