4
Opnar dyr inn í himininn
1 Síðan leit ég upp og sá opnar dyr á himninum. Rödd sem ég hafði heyrt áður, sú sem líktist voldugum lúðurhljómi, talaði til mín og sagði: „Komdu hingað upp og ég mun sýna þér hvað framtíðin ber í skauti sér!“
2 Á sömu stundu var ég staddur í andanum á himnum – hvílík dýrð! Ég sá hásæti og einhvern, sem sat í hásætinu.
3 Mikilli geisladýrð stafaði frá honum, eins og frá glitrandi demanti eða skínandi rúbín, og regnbogi, sem glóði eins og smaragður, var yfir hásæti hans.
4 Umhverfis hásætið voru önnur tuttugu og fjögur minni hásæti og í þeim sátu tuttugu og fjórir öldungar, sem allir voru hvítklæddir og með gullkórónur á höfði.
5 Þrumur og eldingar gengu stöðugt út frá hásætinu og í þrumunum heyrðust raddir. Beint fyrir framan hásætið voru sjö logandi lampar og táknuðu þeir hinn sjöfalda anda Guðs.
6 Þar fyrir framan var glerhaf, kristaltært. Hásætið hafði fjórar hliðar og við hverja hlið stóð lifandi vera, alsett augum.
7 Fyrsta veran var eins og ljón, önnur líktist nauti, sú þriðja hafði mannsandlit og fjórða var eins og örn.
8 Hver vera um sig hafði sex vængi og var miðhluti vængjanna þakinn augum. Verurnar endurtóku þessi orð hvíldarlaust, dag og nótt: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn Guð hinn alvaldi – sá sem var og er og kemur.“
9 Verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð, heiður og þökk, honum, sem lifir um aldir alda,
10 og þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir fram fyrir auglit hans og tilbiðja hann. Þeir varpa kórónum sínum fram fyrir hásætið og syngja:
11 „Drottinn, þú ert verður þess að hljóta dýrð, heiður og mátt, því samkvæmt vilja þínum hefur þú skapað allt sem er.“