5
Kristur hefur frelsað okkur
Kristur frelsaði okkur til þess að við skyldum lifa í frelsi. Verið því staðföst og látið ekki aftur leggja á ykkur þrældómsfjötra, sem binda ykkur föst við lög og siðvenjur Gyðinga. Takið eftir, því þetta er mikilvægt: Ef þið ætlið að verða réttlát í augum Guðs með því að láta umskerast og hlýða lögum Gyðinga, þá getur Kristur ekki frelsað ykkur. Ég endurtek: Hver sá sem reynir að þóknast Guði með því að láta umskerast, verður upp frá því að hlýða öllum lögum Gyðinga eða glatast ella. Kristur er ykkur gagnslaus, ef þið haldið að þið getið greitt skuld ykkar við Guð með því að halda þessi lög – og þar með hafið þið misst af náð Guðs.
En með hjálp heilags anda, trúum við því hins vegar að Kristur hafi dáið til að hreinsa burt syndir okkar og að hann komi öllu í lag milli okkar og Guðs. Við, sem höfum eignast eilíft líf hjá Kristi, þurfum hvorki að hafa áhyggjur af því hvort við séum umskorin eða ekki, né hvort við förum eftir siðum Gyðinga eða ekki – allt sem við þörfnumst er trú sem starfar í kærleika.
Þið byrjuðuð vel, en hver truflaði ykkur eða hindraði í að fylgja sannleikanum? Áreiðanlega ekki Guð, því að það var hann sem kallaði ykkur til frelsis í Kristi. Ef eitt ykkar er vegvillt, þá nægir það til að villa um fyrir öllum hinum. 10 Ég treysti því að Drottinn muni aftur koma ykkur á sömu skoðun og þá sem ég hef á þessum hlutum. Guð mun hafa afskipti af manninum sem truflaði ykkur og olli ruglingnum.
11 Sumir segja, að ég prediki sjálfur að umskurn og hlýðni við lög Gyðinga séu nauðsynlegir þættir í hjálpræðinu. Þá væri ég ekki lengur ofsóttur – því að slíkur boðskapur hneykslar engan. Sú staðreynd, að ég er alltaf ofsóttur, sannar hins vegar að ég predika enn að hjálpræðið fáist einungis fyrir trú á það verk sem Kristur vann á krossinum.
12 Ég óska þess eins að þessir fræðimenn sem vilja umskera ykkur, skeri þess í stað á allt samband sitt við ykkur og láti ykkur í friði.
13 Kæru vinir, þið hafið öðlast frelsi – ekki til að gera það sem rangt er, heldur til að elska og þjóna hvert öðru. 14 Öll lög Gyðinga má draga saman í eitt boðorð: Elskaðu aðra eins og sjálfan þig. 15 Ef þið eruð sífellt að finna að og kvarta, í stað þess að sýna hvert öðru kærleika, þá gætið ykkar! Varið ykkur á að spilla ekki hvert fyrir öðru.
Hlýðið heilögum anda
16 Ég hvet ykkur til að hlýða aðeins því sem heilagur andi segir ykkur. Hann mun segja ykkur hvert þið eigið að fara og hvað þið eigið að gera, og þá munuð þið ekki lengur hlýðnast sjálfselskunni. 17 Það er í eðli okkar að gera hið illa, einmitt það sem heilagur andi segir okkur að láta ógert. Sama er að segja um hið góða sem heilagur andi kemur til leiðar, þegar hann fær rúm í lífi okkar, það stendur í gegn okkar illa eðli. Þessi tvö öfl innra með okkur eiga í stöðugri baráttu um yfirráð yfir okkur og þau munu aldrei láta okkur afskiptalaus. 18 Þegar þið látið leiðast af heilögum anda, þá þurfið þið ekki lengur að þvinga ykkur til hlýðni við lög Gyðinga.
19 En ef þið hins vegar látið eigingirnina leiða ykkur, þá verður afleiðingin þessi í lífi ykkar: Óhreinar hugsanir, löngun í siðlausar nautnir, 20 hjáguðadýrkun, andakukl, fjandskapur og deilur, afbrýðisemi, reiði, eigingirni, sundrung og flokkadrættir. Rangkenningar munu koma fram, 21 öfund, drykkjuskapur, svall og fleira í þeim dúr. Og enn einu sinni segi ég ykkur, eins og ég hef oft sagt áður, að sá sem lifir slíku lífi mun ekki erfa guðsríki.
22 Ef hins vegar heilagur andi stjórnar lífi okkar, þá skapar hann eftirfarandi ávexti í okkur: Kærleika, gleði, frið, þolinmæði, gæsku, góðvild, trúmennsku, 23 hógværð, sjálfsstjórn og bindindi, – ekkert af þessu er í andstöðu við lög Gyðinga.
24 Þeir sem tilheyra Kristi, hafa krossfest hinar illu og holdlegu hvatir sínar á krossi hans. 25 Ef við lifum í krafti heilags anda, þá fylgjum við einnig leiðsögn hans í einu og öllu. 26 Þá þurfum við ekki að keppa eftir heiðri og vinsældum, því slík samkeppni vekur aðeins afbrýðisemi og fjandskap.