14
Jesús svikinn og handtekinn
Tveim dögum síðar hófst páskahátíðin – en þá neyta Gyðingar ekki brauðs með súru geri. Æðstu prestarnir og aðrir leiðtogar þjóðarinnar voru enn að leita að tækifæri til að handtaka Jesú svo lítið bæri á og lífláta hann. „En það er útilokað á páskahátíðinni,“ sögðu þeir, „því þá færi allt í bál og brand.“
Jesús var um þessar mundir staddur í Betaníu, heima hjá Símoni holdsveika. Meðan þeir voru að borða kvöldverð, kom kona inn með fallega flösku með dýrri ilmolíu. Hún braut innsiglið af flöskunni og hellti innihaldinu yfir höfuð Jesú.
4-5  Sumir, sem þarna voru, hneyksluðust á þessari „sóun“ eins og þeir kölluðu það. „Hvað á þetta að þýða,“ tautuðu þeir. „Hún hefði getað selt ilmolíuna fyrir stórfé og gefið það fátækum.“
„Látið hana í friði,“ sagði Jesús. „Af hverju gagnrýnið þið hana fyrir gott verk? Fátæka hafið þið ávallt hjá ykkur og þeim getið þið liðsinnt hvenær sem þið viljið, en mig hafið þið ekki ávallt.
Hún gerði það sem hún gat og hún hefur smurt líkama minn fyrir fram til greftrunar. Ég segi ykkur satt: Hvar sem fagnaðarerindið verður boðað í þessum heimi, mun þess getið sem hún gerði og það lofað.“
10 Þegar hér var komið, fór Júdas Ískaríot til æðstu prestanna, staðráðinn í að svíkja Jesú í hendur þeirra.
11 Þegar þeim varð ljóst erindi Júdasar, lifnaði yfir þeim og þeir hétu honum launum. Eftir það leitaði Júdas að hentugu tækifæri til að svíkja Jesú.
12 Á fyrsta degi páskahátíðarinnar, þegar lömbunum var slátrað, spurðu lærisveinar Jesú hann hvar hann ætlaði að neyta páskamáltíðarinnar. 13 Þá sendi hann tvo þeirra til Jerúsalem til að undirbúa máltíðina.
„Þegar þið komið inn í borgina,“ sagði hann, „munuð þið sjá mann koma á móti ykkur með vatnskrús. Fylgið honum eftir. 14 Þar sem hann fer inn í hús, skuluð þið segja við húsráðandann: „Meistari okkar sendi okkur til að líta á herbergið, sem þú ætlaðir okkur til að neyta páskamáltíðarinnar í.“ 15 Þá mun hann fara með ykkur upp á loft og inn í stórt herbergi, búið þægindum. Þar skuluð þið undirbúa kvöldmáltíð okkar.“
16 Lærisveinarnir tveir fóru því til borgarinnar og fundu allt eins og Jesús hafði sagt og undirbjuggu hátíðarverðinn.
17 Um kvöldið kom Jesús ásamt lærisveinunum. 18 Þegar þeir voru sestir við borðið sagði Jesús: „Ég segi ykkur satt: Einn ykkar mun svíkja mig, einn ykkar, sem hér sitjið og borðið með mér.“
19 Lærisveinunum brá mjög við þessi orð og mikil spenna lá í loftinu. „Er það ég?“ spurðu þeir einn af öðrum. 20 „Já, það er einn ykkar tólf, sem nú borðið hér með mér,“ svaraði Jesús.
21 „Ég verð að deyja eins og spámennirnir sögðu fyrir, en mikil er ógæfa þess sem mig svíkur. Betra væri að hann hefði aldrei fæðst.“
22 Meðan á máltíðinni stóð tók Jesús brauð, og þakkaði Guði. Hann braut það í bita, rétti þeim og sagði: „Borðið þetta – það er líkami minn.“
23 Síðan tók hann bikar með víni, þakkaði og rétti þeim og þeir drukku allir af honum. 24 Síðan sagði hann: „Þetta er blóð mitt, sem úthellt er fyrir marga. Það er innsigli hins nýja sáttmála milli Guðs og manna. 25 Ég segi ykkur satt að ég mun ekki bragða vín fyrr en ég drekk nýja vínið í guðsríki.“
26 Síðan sungu þeir sálm og að því búnu fóru þeir út til Olíufjallsins.
27 „Þið munuð allir yfirgefa mig,“ sagði Jesús, „því Guðs orð segir: „Ég mun slá hirðinn og hjörðin mun tvístrast.“ 28 En eftir að ég er risinn upp frá dauðum, mun ég fara til Galíleu og hitta ykkur þar.“
29 Þá sagði Pétur: „Ég mun aldrei yfirgefa þig, hvað sem hinir gera.“
30 „Pétur,“ sagði Jesús, „áður en haninn hefur galað tvisvar í fyrramálið muntu þrisvar afneita mér.“
31 „Nei!“ hrópaði Pétur. „Ég mun aldrei afneita þér, jafnvel þótt ég ætti að deyja með þér.“ Og allir hinir tóku í sama streng.
32 Þeir komu í garð sem heitir Getsemane og þar sagði Jesús við lærisveinana: „Setjist hérna og bíðið meðan ég fer og biðst fyrir.“
33 Síðan gekk hann lengra ásamt Pétri, Jakobi og Jóhannesi. Þá varð hann angistarfullur og tók að skjálfa. 34 Hann sagði við þá: „Ég er hryggur og fullur örvæntingar á stund dauðans – bíðið hér og vakið með mér.“
35 Hann gekk spölkorn lengra, féll til jarðar og bað þess að sú hræðilega stund, sem biði hans, rynni aldrei upp, ef unnt væri.
36 „Faðir,“ sagði hann, „allt er þér mögulegt. Taktu þennan þjáningarbikar frá mér, en verði samt þinn vilji en ekki minn.“
37 Síðan gekk hann þangað sem lærisveinarnir þrír voru og fann þá sofandi.
„Símon!“ sagði hann. „Ertu sofandi? Gastu ekki einu sinni vakað með mér eina stund? 38 Vakið og biðjið til þess að þið fallið ekki í freistni. Þótt andinn sé fús, er holdið veikt.“
39 Síðan fór hann aftur frá þeim og bað sömu bænar. 40 Eftir það kom hann til þeirra og fann þá enn sofandi. Þeir voru mjög þreyttir og vissu ekki hvað þeir áttu að segja.
41 Í þriðja skipti kom hann til þeirra og sagði: „Sofið þið enn og hvílist? Nú er ekki tími til að sofa! Ég hef verið svikinn í hendur vondra manna. 42 Standið upp, við verðum að fara! Sjáið! Svikari minn er að koma!“
43 Áður en hann hafði sleppt orðinu, kom Júdas (einn af lærisveinum hans) með hóp manna vopnaða sverðum og kylfum. Menn þessa höfðu æðstu prestarnir og aðrir leiðtogar þjóðarinnar sent. 44 Júdas hafði sagt við þá: „Handtakið þann sem ég heilsa. Það verður auðvelt að ná honum.“
45 Jafnskjótt og þeir komu, gekk Júdas til Jesú og sagði glaðlega: „Meistari!“ og kyssti hann. 46 Og þeir lögðu hendur á Jesú og tóku hann. 47 Einhver brá sverði á loft og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.
48 Jesús sagði við hópinn: „Er ég þá hættulegur ræningi? Þið komið alvopnaðir til að handtaka mig. 49 Af hverju tókuð þið mig ekki í musterinu? Þar kenndi ég á hverjum degi! En svona á þetta reyndar að fara, til þess að spádómarnir um mig rætist.“
50 Meðan Jesús var að tala, yfirgáfu allir lærisveinarnir hann og flýðu. 51-52  Og hópurinn lagði af stað með Jesú. En ungur maður, klæddur náttslopp einum saman, kom í humátt á eftir og þegar mennirnir ætluðu að grípa hann, rifnaði sloppurinn og hann flýði nakinn.
Pétur neitar því að þekkja Jesú
53 Nú var farið með Jesú til hallar æðsta prestsins og þar söfnuðust fljótlega saman allir æðstu prestarnir og aðrir leiðtogar. 54 Pétur kom langt á eftir og smeygði sér, svo lítið bar á, inn fyrir hliðið við bústað æðsta prestsins og settist við eldinn í garðinum ásamt þjónunum sem þar voru.
55 Inni í húsinu reyndi hæstiréttur Gyðinga að finna einhverja sök á hendur Jesú, sem nægja mundi til dauðadóms, en árangurslaust. 56 Fjöldi falsvitna gaf sig fram, en framburði þeirra bar ekki saman.
57 Loksins stóðu upp nokkrir menn og báru lognar sakir á Jesú. 58 Þeir sögðu: „Við heyrðum hann segja: „Ég mun rífa niður þetta musteri sem byggt er af mannahöndum og byggja annað á þrem dögum, án þess að hönd komi þar nærri“.“ 59 En ekki bar þeim heldur saman um þetta.
60 Þá reis æðsti presturinn upp og spurði Jesú frammi fyrir réttinum: „Þú svarar engu. Hvað viltu segja þér til varnar?“
61 Jesús svaraði honum ekki einu orði. Þá spurði æðsti presturinn: „Ert þú Kristur, sonur Guðs?“
62 Jesús svaraði: „Já, það er ég og þú munt sjá mig sitja við hægri hönd Guðs og birtast öllum mönnum í skýjum himinsins.“
63-64  Þá reif æðsti presturinn föt sín og hrópaði: „Þurfum við framar vitnanna við! Þið heyrðuð sjálfir guðlastið. Hvað finnst ykkur?“ Og þeir dæmdu hann til dauða einum rómi.
65 Nokkrir viðstaddra tóku að hrækja á Jesú, héldu fyrir augu hans og slógu hann í andlitið. „Spámaður!“ æptu þeir hæðnislega, „hver sló þig núna?“ Jafnvel verðirnir slógu hann, þegar þeir leiddu hann burt.
66-67  Meðan þetta gerðist var Pétur niðri í garðinum. Ein þjónustustúlka æðsta prestsins tók þá eftir honum, þar sem hann var að ylja sér við eldinn. Hún veitti honum nánari athygli og sagði síðan: „Þú varst áreiðanlega með Jesú frá Nasaret.“
68 Pétur neitaði og sagði: „Ég skil ekki hvað þú átt við!“ Síðan færði hann sig nær hliðinu. Þá gól haninn!
69 Eftir stundarkorn kom stúlkan aftur auga á Pétur og sagði við nærstadda: „Þarna er hann! Þarna er þessi lærisveinn Jesú.“
70 En hann neitaði aftur. Stuttu síðar sögðu aðrir, sem stóðu umhverfis eldinn, við Pétur: „Þú ert líka einn af þeim, því þú ert frá Galíleu.“
71 Þá tók hann að blóta og formæla og sagði: „Ég þekki alls ekki þennan mann!“
72 Þá gól haninn í annað sinn. Og Pétur minntist orða Jesú: „Áður en haninn galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér.“
Þá brast Pétur í grát.