9
Jesús ummyndast
Jesús hélt áfram að tala við lærisveina sína og sagði: „Sumir ykkar, sem hér standa, munu lifa það að sjá guðsríki – vald Guðs og stjórn – koma með miklum krafti.“
Sex dögum síðar tók Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes eina með sér upp á hátt fjall.
Skyndilega sáu þeir að andlit hans sveipaðist dýrlegum ljóma og föt hans urðu skínandi björt – hvítari en nokkur föt geta orðið.
Síðan birtust Móse og Elía og fóru að ræða við Jesú!
„Meistari, þetta er stórkostlegt!“ hrópaði Pétur. „Við skulum reisa hér þrjú skýli, eitt handa þér, annað handa Móse og það þriðja handa Elía.“
Þetta sagði hann bara til að segja eitthvað, því hann vissi ekki hvað hann átti að gera, og raunar voru þeir allir skelfingu lostnir.
En áður en Pétur hafði lokið við setninguna, kom ský yfir þá, sem skyggði á sólina, og þeir heyrðu rödd úr skýinu, sem sagði: „Þessi er minn elskaði sonur. Hlustið á hann.“
Er þeir litu í kring um sig, sáu þeir engan nema Jesú einan, – Móse og Elía voru horfnir.
Á leiðinni niður af fjallinu bað hann þá að segja engum frá því sem þeir höfðu séð, ekki fyrr en hann væri risinn upp frá dauðum. 10 Þeir þögðu því um þetta við aðra en ræddu það oft sín á milli og veltu þá fyrir sér hvað hann hefði átt við með orðunum „risinn upp frá dauðum“.
11 En þarna í fjallshlíðinni spurðu þeir hann um nokkuð sem trúarleiðtogar þjóðarinnar töluðu oft um, það að fyrst yrði Elía að koma (áður en Kristur gæti komið). 12-13  Jesús játti því að Elía yrði að koma á undan og ryðja brautina – síðan bætti hann við: „Hann er reyndar búinn að koma! En það var farið hræðilega með hann, rétt eins og spámennirnir höfðu sagt fyrir.“ Síðan spurði hann þá hvað spámennirnir hefðu átt við er þeir spáðu að Kristur ætti að þjást og þola hina dýpstu niðurlægingu.
14 Við rætur fjallsins sáu þeir mikinn mannfjölda, sem safnast hafði umhverfis lærisveinana níu, sem orðið höfðu eftir. Þar voru nokkrir fræðimenn að þrátta við þá. 15 Þegar Jesús nálgaðist, leit fólkið til hans með lotningu og hljóp til móts við hann til þess að heilsa honum. 16 „Um hvað eruð þið að deila?“ spurði Jesús.
17 „Meistari,“ sagði maður einn í hópnum, „ég kom hingað með son minn til að biðja þig að lækna hann – hann er mállaus, því illur andi er í honum. 18 Þegar andinn hefur hann á valdi sínu, kastar hann honum niður svo að hann froðufellir, gnístir tönnum og stífnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka þennan illa anda út en þeir gátu það ekki.“
19 Þá sagði Jesús (við lærisveinana): „Æ, lítil er trú ykkar, hversu lengi þarf ég að vera með ykkur til þess að þið trúið? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Komið hingað með drenginn.“
20 Þeir sóttu því drenginn, en þegar illi andinn sá Jesú, þá teygði hann drenginn sundur og saman svo að hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.
21 „Hve lengi hefur þetta verið svona?“ spurði Jesús föður hans.
„Síðan hann var lítill. 22 Oft lætur andinn hann falla í eldstóna eða í vatn til að reyna að gera út af við hann. Ó, miskunnaðu okkur og gerðu eitthvað til að hjálpa okkur, ef þú getur.“
23 „Ef ég get?“ spurði Jesús, og síðan bætti hann við: „Ef þú trúir er allt mögulegt.“
24 „Ég trúi,“ svaraði maðurinn, „en hjálpaðu mér svo ég eignist enn meiri trú.“
25 Mannfjöldinn þyrptist nú að, en Jesús hastaði á illa andann og sagði: „Þú andi heyrnarleysis og málleysis, ég skipa þér að fara út af þessu barni og koma aldrei aftur.“
26 Þá rak illi andinn upp hræðilegt org, teygði drenginn sundur og saman og fór út úr honum. Drengurinn lá hreyfingarlaus og virtist dáinn. Kliður fór um mannfjöldann – „Hann er dáinn, hann er dáinn.“ 27 En Jesús tók um hönd hans og hjálpaði honum á fætur. Og þarna stóð hann – alheill! 28 Eftir á, þegar Jesús var orðinn einn með lærisveinunum innan dyra, spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið þennan illa anda út?“
29 Jesús svaraði og sagði: „Við þessu dugar ekkert nema bæn.“
30-31  Síðan fór hann burt þaðan og ferðaðist um Galíleu. Hann reyndi að forðast að vekja á sér athygli, svo að hann gæti eytt meiri tíma með lærisveinunum og kennt þeim. Hann sagði við þá: „Ég, Kristur, mun verða svikinn og deyddur en á þriðja degi mun ég rísa upp á ný.“
32 Þetta skildu þeir ekki og þorðu ekki að spyrja hann við hvað hann ætti.
33 Þeir komu til Kapernaum og er þeir voru komnir þar inn í hús, spurði hann þá: „Um hvað voruð þið að ræða á leiðinni?“
34 Þeir þorðu ekki að svara, því þeir höfðu verið að þrátta um hver þeirra væri mestur.
35 Hann settist, kallaði þá til sín og sagði: „Sá sem vill verða mestur, hann verður að vera minnstur; þjónn allra.“
36 Síðan kallaði hann á lítið barn og setti það á meðal þeirra. Að því búnu tók hann það í fang sér og sagði: 37 „Hver sá sem tekur á móti litlu barni eins og þessu, mín vegna, tekur á móti mér, og hver sá sem tekur á móti mér, tekur á móti föður mínum sem sendi mig.“
„Bannið það ekki!“
38 Dag einn sagði Jóhannes, einn af lærisveinum hans, við hann: „Meistari, við sáum mann sem notaði nafn þitt til að reka út illa anda. Við bönnuðum honum það, af því að hann er ekki einn úr okkar hópi.“
39 „Það skuluð þið ekki gera,“ sagði Jesús, „því að enginn sem unnið hefur kraftaverk í mínu nafni, snýst gegn mér á eftir. 40 Sá sem ekki er á móti okkur, hann er með okkur. 41 Ef einhver gefur ykkur eitthvað, þó ekki sé nema eitt vatnsglas, vegna þess að þið tilheyrið mér – þá skuluð þið vita að hann mun fá sín laun. 42 En! – ef einhver verður til þess að einn af þessum smælingjum sem trúa á mig, glatar trúnni, væri betra fyrir þann mann að vera fleygt í sjóinn, með stóran myllustein bundinn um hálsinn.
43-44  Ef hönd þín gerir rangt, þá er betra að skera hana af og hafa aðeins aðra höndina og eignast eilíft líf, en hafa báðar og vera varpað í helvíti. 45-46  Ef fótur þinn leiðir þig á veg illskunnar, höggðu hann þá af! Betra er að vera einfættur og eignast eilíft líf, en ganga á báðum fótum til helvítis. 47 Ef auga þitt teymir þig út í syndina, stingdu það þá úr! Betra er að ganga hálfblindur inn í guðsríki, en hafa bæði augun og líta elda helvítis. 48 Þar mun ormurinn aldrei deyja og eldur ekki slokkna. 49 Þar eru allir eldi saltaðir!
50 Salt er gott, en ef það missir seltuna, þá er það gagnslaust. Gætið því að missa ekki seltuna og haldið frið ykkar á milli.“