8
Dag einn um þessar mundir safnaðist mikill mannfjöldi að honum og nú varð fólkið matarlaust á ný. Jesús kallaði þá saman lærisveinana til að ræða málið.
„Ég finn til með fólkinu,“ sagði hann. „Nú hefur það verið hér í þrjá daga og allur matur er upp urinn. Ef ég sendi það heim matarlaust mun það örmagnast á leiðinni, því margir eiga langt heim.“
„En er nokkurn mat að finna hér í óbyggðinni?“ spurðu lærisveinarnir.
„Hvað eigið þið mörg brauð?“ spurði hann. „Sjö,“ svöruðu þeir. Þá sagði hann fólkinu að setjast niður. Síðan tók hann brauðin og þakkaði Guði. Hann braut þau í sundur, rétti lærisveinunum og þeir síðan fólkinu. Þeir höfðu einnig nokkra smáfiska sem Jesús þakkaði líka fyrir og bað þá að tilreiða.
8-9  Allir viðstaddir borðuðu sig metta og að því búnu sendi hann þá heim. Þarna voru um fjögur þúsund manns og þegar leifunum hafði verið safnað saman eftir máltíðina, fylltu þær sjö stórar körfur!
„Þurfið þið að sjá enn fleiri kraftaverk?“
10 Strax að þessu loknu fór hann á bátnum ásamt lærisveinunum og hélt til Dalmanútahéraðs. 11 Þegar leiðtogar staðarins fréttu að Jesús væri kominn, fóru þeir til hans til að þrátta við hann.
„Gerðu nú eitthvert kraftaverk fyrir okkur,“ sögðu þeir. „Láttu eitthvað birtast á himninum og þá skulum við trúa á þig.“
12 Þegar hann heyrði þetta stundi hann þungan og sagði: „Nei, ég hef alls ekki hugsað mér að gefa ykkur slíkt tákn.“
13 Síðan steig hann aftur um borð í bátinn og hélt yfir vatnið. 14 Þeir höfðu þá aðeins eitt brauð meðferðis því lærisveinarnir höfðu gleymt að birgja sig upp af mat áður en þeir lögðu frá landi.
15 Á leiðinni yfir vatnið sagði Jesús við lærisveinana alvarlegur í bragði: „Varið ykkur á súrdeigi Heródesar konungs og faríseanna.“ 16 „Hvað á hann nú við?“ spurðu lærisveinarnir hver annan. Að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að hann hlyti að eiga við brauðið sem þeir höfðu gleymt að kaupa.
17 Jesús vissi um hvað þeir voru að tala og sagði því: „Nei, ég á alls ekki við það! Skiljið þið mig ekki? 18 Það er satt sem Jesaja sagði. „Augun eru til að sjá, en hvers vegna notið þið þau ekki? Og hvers vegna hlustið þið ekki, til þess eru eyrun.“ Munið þið ekkert eða hvað?
19 Hvað um fimm þúsundirnar sem ég mettaði með brauðunum fimm? Og hvað fylltuð þið margar körfur með brauðmolum á eftir?“ „Tólf,“ svöruðu þeir.
20 „Og þegar ég lét sjö brauð nægja handa fjórum þúsundum, varð þá eitthvað eftir?“
„Sjö fullar körfur,“ svöruðu þeir.
21 „Haldið þið þá enn að ég kvíði brauðleysinu?“
22 Þegar þeir stigu á land í Betsaída var komið með blindan mann og Jesús beðinn að lækna hann. 23 Jesús leiddi blinda manninn út úr bænum, spýtti í augu hans og lagði hendur sínar yfir þau.
„Sérðu núna?“ spurði Jesús.
24 Maðurinn leit í kring um sig. „Já,“ svaraði hann, „ég sé fólk, en ég sé óskýrt, það er eins og trjástofnar.“
25 Þegar Jesús hafði lagt hendur sínar yfir augu mannsins í annað sinn horfði hann athugull í kringum sig, því nú sá hann allt mjög skýrt.
26 Jesús sagði að hann skyldi halda rakleiðis heim til fjölskyldu sinnar en ekki koma við í bænum á leiðinni.
„Þú ert Kristur“
27 Jesús og lærisveinar hans fóru nú frá Galíleu og til þorpanna í grennd við Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann þá: „Hvað heldur fólk um mig? Hver heldur það að ég sé?“
28 „Sumir halda að þú sért Jóhannes skírari,“ svöruðu lærisveinarnir. „Aðrir segja að þú sért Elía eða einhver hinna fornu spámanna risinn upp frá dauðum.“
29 „En þið?“ spurði hann, „hvern segið þið mig vera?“ Og Pétur svaraði: „Þú ert Kristur.“ 30 Þá áminnti Jesús þá um að tala ekki um þetta við nokkurn mann.
31 Síðan sagði hann þeim frá þjáningunum sem biðu hans, að honum yrði hafnað af öldungunum, æðstu prestunum og öðrum leiðtogum þjóðarinnar, og eftir það yrði hann deyddur, en risi upp frá dauðum á þriðja degi. 32 Hann talaði svo opinskátt við þá um þetta, að Pétur vék honum afsíðis og ávítaði hann.
„Svona mátt þú ekki tala,“ sagði Pétur. 33 Jesús sneri sér við, leit á lærisveinana og sagði síðan við Pétur ákveðinni röddu: „Burt með þig, Satan! Þú lítur á málið frá mannlegu sjónarmiði en ekki Guðs.“
34 Síðan kallaði hann á lærisveinana og allt fólkið og sagði: „Vilji einhver fylgja mér, þá afneiti hann sjálfum sér, taki upp kross sinn og fylgi mér fast eftir, 35 því hver sá sem vill eiga líf sitt fyrir sjálfan sig, mun tapa því. Þeir einir, sem afneita sjálfum sér vegna mín og gleðiboðskaparins, munu kynnast lífinu í raun og veru.
36 Hvaða gagn er að því að eignast allan heiminn, ef maður týnir við það sálu sinni? 37 Er sál mannsins ekki það dýrmætasta sem hann á? 38 Þegar ég kem aftur í dýrð föðurins með heilögum englum, mun ég blygðast mín fyrir hvern þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð á þessum tímum syndar og vantrúar.“